Blogg

21.janúar 2015.

Nú styttist heldur betur í sýninguna okkar, en hún opnar laugardaginn 30.janúar kl 15:00. Sýningin samanstendur af allskyns flottum og áhugaverðum verkefnum. Á þessarri sýningu ætla ég að vera með tvö verkefni, annarsvegar verk sem fjallar um frjálsann leik barna í náttúrunni og hins vegar verk um móður mína. Sýningin verður haldin á Læknaminjasafninu á Seltjarnarnesi og stendur yfir allt fram til 7.febrúar. Eftir það er ég útskrifuð úr Ljósmyndaskólanum.

Þá tekur við að starfa sem ljósmyndari. Um jólin var ég svo heppin að ég fékk að mynda brúðkaup, sem gekk alveg rosalega vel og var svo skemmtilegt. Ég hlakka til að takast á við fleiri brúðkaup gegnum tíðina. Einnig hef ég verið svo lánsöm að fá að mynda barnsfæðingu sem ég væri mikið til í að gera meira af. Að mynda veislur, viðburði og annað slíkt hentar mér vel svona samhliða stúdíómyndunum.

Ég hvet alla til að kíkja við á sýningunni okkar! Undirbúningur er í fullum gangi og byrjum við að hengja upp verkin okkar núna strax um helgina! Hlakka til að sjá sem flesta. Ég ætla að enda þessa færslu á því að birta eina mynd úr einni af tökunum fyrir sýninguna.

12487117_1658417287740832_4036070011065259339_o

 

 

9.desember 2015.

Um þessar mundir er ég að vinna hörðum höndum að útskriftarverkefninu mínu í Ljósmyndaskólanum. Verkið mitt fjallar um frelsið, fegurðina, einlægðina og gleðina sem fylgir því að vera barn úti að leika sér í íslenskri náttúru. Ég hef farið með börnum út að leika, þar sem við tökum engin leikföng með okkur heldur fær barnið frjálsar hendur við það að leika sér í, að mestu óspilltri, náttúru Íslands. Við gerð þessa verkefnis hef ég fengið tækifæri til að kynnast mörgum börnum, eiga góð og skemmtileg samtöl við þau. Það er svo gaman að hlusta á það sem börn hafa að segja, leyfa þeim að segja sínar skoðanir og hugsanir.

Í eitt skiptið í sumar var ég að mynda fyrir verkefnið mitt þar sem ég myndaði litla fjagra ára stúlku. Við fórum saman í dýragarð, þar sem hún fékk að halda á litlum kettling. Hún horfir dreymandi á sofandi kettlinginn í fanginu á sér, lýtur svo á mig og segir: “Heldur þú að hann sé að dreyma ? Ég held að hann sé að dreyma að hann sé froskur sem breytist í prinsessu”. Þessi sama stúlka benti mér líka eitt sinn á grjótgarð, þar sem hún hljóp upp grjótgarðinn leit hún til baka og segir við mig: “Komdu með mér Olga, komdu og upplifðu ævintýrið með mér”. Þetta fannst mér svo fallegt, hún sá kastala meðan ég sá grjótgarð.

Ég man eftir því frá því ég var barn hvað það var mikið frelsi sem fylgdi því að geta farið út að leika. Ég fór niður í fjöru, kasta steinum í sjóinn og reyna að fleita kerlingar. Ég fór líka út á róló, en mér fannst mun skemmtilegra þegar ég fékk að fara í fjöruferðirnar, klifra í klettunum, rúlla mér niður brekkurnar, skoða undir steinana, leita að skordýrum, safna ormum í dalla og rannsaka heiminn. Mér finnst svo sorglegt hversu sjaldan ég sé börn úti í frjálsum leik í dag. Það virðist vera á undanhaldi að börn fari út að leika sér og rannsaki heiminn. Ég veit hins vegar að börnin sem hafa verið með mér í leikjum meðan ég hef verið að mynda, hafa haft einstaklega gaman af því og notið þess að fá að vera úti að leika sér, frjáls.